Færsluflokkur: Bloggar

Einstaklingsréttindi og réttindi samfélagsins

Athyglisverð umræða hefur átt sér stað í fjölmiðlum undanfarið um réttindi þeirra sem brjóta af sér eða gegn öðrum vis-a-vis réttindum hinna sem eru í nánasta umhverfi þeirra sem brjóta af sér. Þau dæmi sem höfð eru í huga er annars vegar umræða um meint brot á réttindum einstaklings sem þvingaður var til að gefa þvagprufu svo hægt væri væntanlega að komast að því hvort viðkomandi hefði ekið undir áhrifum áfengis eða ekki - öllu heldur hve mikið áfengismagnið hefði verið. Hitt dæmið er um réttindi þeirra nemenda á grunnskólastigi, þ.e. í skólaskyldu, til að fá fræðslu, þótt hegðan þeirra bæði truflaði eða beinlínis hindraði aðra nemendur í námi og eða skapaði aukin útgjöld fyrir hlutaðeigandi skóla og þar að leiðandi kæmi niður á öðrum nemendum óbeint a.m.k.

Sýslumaður í "þvagprufumálinu" var ekki í nokkrum vafa um sína stöðu, hann var að vernda almannaheill og því var réttlætanlegt að "brjóta" á réttindum ökumannsins sem var grunaður um ölvunarakstur og hefði getað valdið öðrum líkamlegu tjóni eða skemmdum á eigum. Sem betur fer, hlaust ekkert tjón af akstri þessa ökumanns svo þessi umræða verður alltaf "akademisk". Hins vegar hefði sýslumaður að öllum líkindum legið undir ámælum hefði hann ekkert aðhafst og umræddur ökumaður valdið tjóni eða málinu vísað frá dómi vegna ófullnægjandi sönnunargagna. Sú hugmynd, að láta lítið skilgreind "réttindi" og "sjálfsvirðingu" hins seka njóta vafans stangast á hagsmuni heildarinnar, það lagaumhverfis sem réttaríkið byggist á og er í raun í þversögn við markmið læknisstarfa. Hver er sjálfsvirðing þeirra sem aka undir áhrifum? Eins hvað með þá sem verða fyrir tjóni - líkamlegu eða veraldlegu vegna ákeyrslu ölvaðs ökumanns? Hlutverk lækna er lækna líkamleg mein og koma röð og reglu á starfsemi og útlit líkama samborgarana. Lögreglan hefur það hlutverk að halda uppi röð og reglu í samfélaginu og því eru þessar vangaveltur læknis um lögfræðileg atriði ótrúverðug. Allt málið fer fyrir dómstóla, sem vega og meta allar aðstæður og þá mun væntanlega verða skilgreint hvað má og má ekki í svona málum.

Í hinu dæminu, þar sem Reykjavíkurborg var að setja sér vinnureglur um viðbrögð vegna refsinga nemenda í grunnskólum borgarinnar, verður að segja að slíkt hafi verið löngu tímabært og þarft atriði. Það er löngu tímabært að réttindi og skyldur afbrotaaðila og brotaþola séu skilgreind samhliða verkferlinu sjálfu. Það hljómar sem þversögn reyndar að nemendur sem vísað sé úr skóla fyrir alvarleg brot, eigi sérstakt tilkall til að þeim sé sinnt sérstaklega og að gerðar verði sérstakar og kostnaðarsamar ráðstafanir til að tryggja að þeir fái að stunda nám sitt. Með því að brjóta gegn reglum samfélagsins hafa þeir hinir sömu að nokkru leyti a.m.k. fyrirgert rétti sínum til að halda áfram námi eða að aka um vegi landsins í tilfelli ölvaðra ökumanna. Andlegt ástand réttlætir ekki afbrot nema að viðkomandi sé veikur og undir þeim kringustæðum á að fá lækningu. Eins og bent hefur verið á, ávinna menn sér ekki aukin réttindi með slæmri hegðun og framkomu!

Þessi umræða er of mikilvæg til að henni sé stungið undir stól eða persónugerð í einum bílstjóra eða sýslumanni eða þaðan af síður verið hluti í tilverubaráttu einhverra hagsmunasamtaka. Þetta er umræða sem á heima á síðum blaða og í umfjöllunarþáttum ljósvakamiðla. Umræða þessi snertir grundvallaratriði lýðræðislegra réttinda í nútímasamfélagi.


Heimurinn hans Steingríms J

Steingrímur J. er sennilega einn af okkar litríkustu stjórnmálamönnum, duglegustu og mest áberandi. Hann ræðst með miklum krafti á andstæðinga og af mikilli hörku. Nú síðast skammast hann út í varnarsamningin við NATO, að því virðist af meira kappi en forsjá.

Gallinn við Steingrím og marga af hans líkum hann er of oft neikvæður. Fróðlegt væri að velta í tilverunni fyrir sér hvernig landið liti út ef hann og hans líkar hefðu fengið að ráða.

Augljóst er að Ísland hefði aldrei gengið í NATO og hér aldrei verið varnarlið.
Nokkuð líklegt er að við hefðum aldrei byggt upp stóriðju hér á landi, hvorki Straumsvík eða við Grundartanga, svo ég tali nú ekki um Fjarðarál.
Eins er líklegast að við hefðum aldrei gengið í EFTA á sínum tíma og síðar gert EES samningin.
Hans líkar voru á móti frjálsu útvarpi og sennilega hefði bara verið ein útvarpsstöð enn í landinu, það sem heitir RÁS 1. Alveg fyrirtaksstöð, en mér er það til efs að hún dugi öllum.
Epli voru flutt inn fyrir jólin hér áður. E.t.v. hefði það dugað Steingrími og hans líkum!

Þetta eru bara örfá dæmi um það sem Steingrímur og hans líkar hafa verið á móti á síðustu áratugum. Fróðlegt væri ef reiknað væri út hvernig efnahagsástandið væri ef þessi öfl hefðu fengið að ráða í gegnum tíðina.

Ekki má taka orð þessi þannig að banna eigi eða setja hömlur á skoðanafrelsi Steingríms og hans líka. Stjórnarandstaða er nauðsynleg öllum lýðræðissamfélögum, en hún verður líka að sýna ábyrgð og vera ekki á móti til þess að vera móti. Þá tapar stjórnarandstaðan trúverðugleika og þegar Steingrímur hefur rétt fyrir sér, sem gæti gerst, þá er hætt við að enginn taki mark á honum. Það er líka hættulegt lýðræðinu, því hefur hann þá skyldu að sýna ábyrgð, rétt eins og þeir sem eru við stjórnvölinn.


Enn og aftur, röng hugsun

Alltof mörgum í þessu samfélagi dettur í hug að setja boð og bönn í þeim tilgangi að "leysa" vandamál. Notkun aðalljósa bíla allan sólarhringinn allt árið átti að leysa vandamál í umferðinni. Angi af þessari umræðu er gjaldtaka af náttúrauðlindum okkar. Ég spyr hvað næst? Þurfum við í framtíðinni að borga fyrir súrefnið sem við öndum að okkur? Hvers ættu hlauparar þá að gjalda, sem taka upp mun meira súrefni en við hin?

Svarið felst í að bjóða upp á þjónustu sem ferðamenn eru tilbúnir að borga fyrir og nota hagnaðinn af þeirri sölu til uppbyggingar á þeim stöðum sem þess þarfnast.


mbl.is Gjald inn á ferðamannastaði raunhæft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mismunun ekki eðlileg

Eins og Björn Bjarnason kemur inn á í sinni umfjöllun væri nær að byggja um góða þjónustu fyrir alla, ekki mismuna fólki. Slíkt er vísir að ákveðinni stéttaskiptingu og leiðir af sér þá spurningu hvort ekki væri eðlilegt að "mismuna" á fleiri sviðum, t.d. læknisþjónustu, forgangi í dómsmálum, umferðinni (eins og gert er t.d. í Moskvu) o.s.frv.
mbl.is Sérreglur fyrir útvalda leiða frekar til mistaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagsvandi

Ljóst er að ofbeldi er að aukast í samfélaginu. Meiri firring og skeytingarleysi einkennir ofbeldi nútímans. Hin "gömlu og góðu" slagsmál heyra sögunni til, en nú eru menn barðir til óbóta, jafnvel með öflugum kylfum og þaðan af verra.

Yfir sumartíman færist þetta ofbeldi, úr þéttbýlinu, á ferðamannastaði víða á landsbyggðinni. Dómsmálaráðuneytið þarf að laga sig að aðstæðum og færa liðsafla til eftir aðstæðum. Heimamenn eru ekki undir það búnir að takast á við skyndilegan fjölda og ofbeldi sem verður oft í kjölfarið á SMS hópsöfnunum eins varð á Hellishólum um helgina.

Ríkislögreglustjóra ber að styðja lögregluyfirvöld á landsbyggðinni í tilfellum sem þessum. Síðan þarf að ræða opinberlega hvað veldur og reyna að bregaðst við.


mbl.is Ölvun og ólæti á tjaldsvæði í Fljótshlíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland hreinasta landi í heimi!

Það er margt sem styður þá fullyrðingu að Ísland sé hreinasta land í heimi. Hér er hlutfall endurnýjanlegrar orku um 70% ef ég man rétt, af heildarorkunotkun landsmanna, þegar mörg Evrópuríki eru einhversstaðar við 10% og Evrópusambandið er með langtímamarkmið að koma þessu hlutfalli í 20%! Hér er að sjálfsögðu átt við hitaveituna og vatnsaflvirkjanir okkar.

Vissulega getum við bætt okkar hlut og eigum að að gera það, s.s. með bættum skilum og endurnýjun umbúða, aukið hlut endurýjanlegrar orku eða hlut minna mengandi orkugjafa í bílaumferð eins og rafmagns og metans svo dæmi séu tekin.

Kostir íslenskra matvæla felast í hreinleikanum og ferskleikanum. Við erum laus við öll þau bætiefni og eiturefni sem nauðsynlegt er að nota við matvælaframleiðsu víð erlendis. Það þekkjum við öll sem höfum samanburð. Langlífi hér á landi er ein skírasta vísbending um að við gerum eitthvað rétt. Hægt væri að bæta hér mörgum atriðum við þennan lista.

Þó eflaust mætti gagnrýna þessa fullyrðingu, að Ísland sé hreinasta land í heimi, og finna einhvern óhagstæðan samanburð, gætum við samt markaðssett landið okkar sem sem slíkt og látið aðra um að leitast við að afsanna þessa fullyrðingu, ef svo ber undir.

ÍSLAND ER HREINASTA LAND Í HEIMI!


"After Sun" fyrir íslenska vegi

Ein af "snilldarlausnum" íslenskrar vegagerðar er olíumölin svokallaða, e.k. sambland af malarvegi og malbiki. Vegagerðin virðist hafa það að móttói að vera einu skrefi á eftir, ef svo má að orði komast.

Dæmi er olíumölin sem er leið að binda ryk og lausamöl á vegum landsins, að hluta til a.m.k. Vandamálið er að olíumölin hentar ekki þar sem umferð er mikil eða þar sem mikið er um þungaumferð eða hita - hvað á þá heldur sem þetta allt fer saman.

Hætt er við þar sem ekið er nokkuð umfram útreiknaða meðaltalsumferð, að vegirnir þoli ekki álagið - sérstaklega ef sólin skín. Afleiðingarnar verða vegir sem klessast niður eða eins og gerst getur að vegirnir fara að "svitna" þ.e. tjaran sem sett er í vegin til að binda mölina, leysit upp vegirnir verða hálf "rakir" eða sólbrenndir. Lausnin er e.k. "After Sun" fyrir vegina, eða sandur sem sáldrað er yfir vegina til að hindra smit eða sólbruna vegarins!

Væri ekki nær að splæsa almennilegu malbiki á vegina og vera laus við viðhald og vandræði af þessu tagi?


Nóg komið af ritskoðunum!

Er ekki nóg komið af ritskoðunum, nú bindindispostulanna. Mannanafnanefnd er eitt þeirra battería sem sett hefur verið á laggirnar til að skipta sér af nöfnum sem börn eru gefin. Ekki eru mjög mörg ár síðan að epli voru flutt inn aðeins fyrir jólin og var eplailmurinn hluti af jólastemmningunni. Einu sinni var bara ein útvarpsrás í landinu og þótti ýmsum það alveg nóg.

Er ekki kominn tími til að gefa fólki á að dæma sjálft hvað það vill í þessum efnum og hvað ekki? Áfengi er böl og á að fara leynt með - ef hægt er. Áfengi er víðast erlendis sem hluti af matarvenjum fólks. Ég hef ferðast víða og mikið á undanförnum árum og hef varla séð einstakling undir áhrifum áfengis á götum úti, nema þar sem áfengi er álitið böl, þ.e. á Íslandi, Finnlandi og Noregi.

Búum til kúltúr þar sem fólk lærir að umgangast áfengi eins og önnur matvæli og hættum þessum bönnum!


mbl.is Dæmdur í sekt fyrir að láta birta áfengisauglýsingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bannið þá vitlaust?

Um daginn skrifaði ég smá blogg um þetta mál og vek athygli í raun á að bannið sé e.t.v. ekki tilangslaust, en þjóni varla tilgangi sínum og kemur þar margt til.

Málið er, eins og segir í fréttinni, að athyglin við aksturinn skiptir öllu máli. Bílstjóri getur verið „löglegur" við allt annað en að tala í síma og samt gleymt sér við aksturinn, s.s. að skipta um útvarpsstöð, CD disk í tækjunum, snæða pylsu eða eitthvað annað, reykja, misst glóð úr rettunni í sætið o.s.frv. Allt löglegt, skv. umferðarlögum!

Áherslan hjá Umferðarstofu og tryggingarfélögunum á að snúast um að hvetja bílstjóra til að hafa athygli við aksturinn, þeir beri ábyrgð á bílnum, bíllinn geti valdið tjóni ef ... o.s.frv. Það er nefnilega ekki hægt að fara hina leiðina og telja upp allt sem má ekki. Verum jákvæð og höfðum til skynseminnar.


mbl.is Handfrjáls búnaður eða ekki, samræðurnar skipta mestu máli við aksturinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterar í tísku?

Skv. nýlegri rannsókn í Bretlandi er vitað um 42 þús. steranotendur í Bretlandi, jafnvel talið að þeir séu allt að um 100 þús. Þetta þýðir að það eru álíka margir sem nota stera og heróín þar í landi.

Þetta er mikil aukning og sérstaklega í yngri aldurshópunum, þ.e. 25 ára og yngri. Margir unglingar sjá fyrirmyndir eins og t.d. Schwarzenegger, en hafa ekki þolinmæði eða andlegt þrek til að byggja sig upp sjálfir á eigin forsendum, heldur tvíeflast við það að nota stera. Þessi efni er hægt að nálgast auðveldlega á netinu og á líkamsræktarstöðvum, a.m.k. í Bretlandi.

Í nútíma samfélagi þar sem gerðar eru meiri kröfur um vit en strit, er ekki þörf á mikilli líkamlegri þjálfun. Lágmarksáhersla er lögð á líkamlega þjálfun í skólum. Hins vegar eru kröfur um flott útlit og það skjótt helst. Formúlan getur því orðið: sterar fyrir vöðvana, sólbekkir fyrir húðina, orkudrykkir fyrir úthaldið, eitthvað hressilegt fyrir kvöldið og síðan smá viagra fyrir endasprettinn!!

Hætturnar eru augljósar, en fræðslu vantar. Íþrótta- og Ólympíusambandið (ÍSÍ) er með fræðslu og eftirlit innan sinna vébanda, en það er hvergi nærri nóg. ÍSÍ hefur mjög takmarkað fjármagn og síðan nær valdsvið ÍSÍ ekki út fyrir sína félagsmenn eða starfsemi. Anabólískir sterar geta verið áhrifamikil læknislyf, en eftirlitslaus noktun geta verið skaðleg, jafnvel banvæn.

Færa þarf lyfjaeftirlit og fræðslu til sérstakrar stofnunar, sem ynni í nánum tengslum við íþrótthreyfinguna, lögregluna og ekki síður skóla landins. Við þurfum að útrýma þessari vá, með svipuðu hugarfari og gert er með tóbakið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jónas Egils.

Höfundur

Jónas Egilsson
Jónas Egilsson
Höfundur er áhugamaður um mál líðandi stundar og er stjórnmálafræðingur að mennt.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mávur að nærast á hval.
  • picture 2 861432.png
  • Ráðherra í fríi
  • Leiðarljós vinstri manna í efnahagsmálum?
  • Mme. Joly - Nýjasta svindlið?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband