Raunverulegt tap?

Það þarf að skoða hvalveiðimálið í ljósi þessara staðreynda og hversu mikið er og gæti tapast af viðskiptahagsmunum okkar. Fróðlegt væri t.d. að fá upplýsingar um umfang Whole Foods Market á íslenskum vörum sem þarna er að tapast. 

Eru þetta einhverjar upphæðir að ráði og hver er kynningarkostnaðurinn búinn að vera? Er þetta raunverulegt tap?

Baldvin, það er ekki nóg að segja að markaður hafi tapast, heldur þarf að greina frá því hversu mikið er í húfi.

Þá væri líka fróðlegt að sjá efnahagslegt umfang hvalveiðanna, ásamt því að fá upplýsingar um vistfræðileg áhrif hvala við Íslandsstrendur. 


mbl.is Ákvörðun keðjunnar vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Ekki gera ekki neitt“

Tími hástemmdra yfirlýsinga er liðinn og tími aðgerða líka, en ríkisstjórnin er fallin á tíma, en lítið er farið að bóla á aðgerðum fyrir fjölskyldur og atvinnulífið í landinu, á meðan vandinn eykst og atvinnulausum fjölgar.

Nokkrum smáatriðum hefur verið komið til framkvæmda eða komið frá ríkisstjórninni: 

 

  • Búið er að skipta um stjórn Seðlabankans. Árangurinn af nýrri stjórn varð 1% lækkun. Sú aðgerð að skipta um stjórn tók þrjár vikur í þinginu og á meðan gerðist ekkert annað í efnahagsmálum þjóðarinnar.
  • Fjármálaráðherra hefur sett fram hugmyndir um myntsamstarf við Noreg, sem Norðmenn sjálfir hafa hafnað!
  • Skatthækkunum hefur verið lofað!
  • Blásið hefur verið á tillögur um skuldalækkun almennings og fyrirtækja þar sem gætu sett hjól efnahagslífsins af stað að nýju.

 

Áfram mætti telja. Spurning er hvort ekki sé tímabært að setja loforðalista ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms í innheimtu!

A.m.k. ætti þau að taka kjörorð einnar innheimtustofnunar til skoðunar „Ekki gera ekki neitt!“


Framsókn í einangrun?

Nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, stefnir hraðbyri að pólitískri einangrun flokksins, áður en kemur að kosningum og áður en hann kemst sjálfur á þing.

Fyrir skemmstu lýsti formaðurinn því yfir að hans hugur stefndi í vinstri stjórn. Nú hins vegar lýsir hann Samfylkingunni sem „loftbóluflokki“ og hefur endurgoldið viðeigandi svör frá væntanlegum formanni á þeim bæ.

Fyrri yfirlýsing formanns Framsóknar kom þegar fylgi Framsóknar tók að dala eftir fyrstu uppsveiflu í kjölfar landsfundar flokksins, en hugur almennings stefndi í vinstri stjórn. Nú þegar fylgi flokksins er farið að dala og sýnt að hvorki Samfylkingin eða VG virðast hafa áhuga á samstarfi við Framsókn eða þörf, leitast Sigmundur við að spyrna við fótum með gagnrýni sinni á Samfylkinguna.

Niðurstaðan er að í viðleitni formanns Framsóknarflokksins til að efla fylgi flokksins og tryggja eigin framtíð sem formaður, hafi honum tekist að einangra sig frá bæði Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni og þar með frá stjórnarsamstarfi að loknum kosningum.

En vika er langur tími í pólitík, hvað þá mánuður. Nú er spurning hvort og þá hvernig nýjum formanni tekst til að við að rétta fylgi flokksins af og þá hasla flokknum völl að kosningum loknum.  


Samfylkingin í tilvistarkreppu

Greinileg forystukreppa er kominn upp hjá Samfylkingunni. Brestir komu í innviði flokksins fljótlega eftir að gengið var til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn vorið 2007. Sá ráðahagur leysti aftur á móti vanda formannsins sem hafði tapað fylgi á landsvísu frá kosningum á undan. Þessir brestir komu enn betur í ljós þegar formaðurinn veiktist sl. haust og flokkurinn var undir álagi vegna efnahagsástandsins. Segja má að flokkurinn hafi ekki staðist álagsprófun.

Markmið Samfylkingarinnar, var eins og nafnið gefur til kynna, að sameina alla vinstri menn í einum flokki. Sú tilraun rann út í sandinn strax í upphafi, þegar ljóst varð að vinstri armur gamla Alþýðubandalagsins undir forystu Steingríms J. færi ekki með í sameininguna. Fordæmin voru sótt til R-listans í borginni og Röskvu í HÍ. Ingibjörg Sólrún reyndist öflugur forystumaður í Reykjavík og nú átti að endurtaka leikinn á landsvísu. Fyrir einhverja hluta sakir eiga vinstri menn á Íslandi auðveldar með að fjargviðrast við hvern annan, en andstæðingana. Sagan er yfirfull af tilraunum þeirra til að sameinast, sem jafnoft endar með klofningi. Sú virðist ætla að verða raunin enn einu sinni.

Nú er sundurlyndið innan Samfylkingarinnar orðið slíkt, að ekki finnst ærlegt formannsefni lengur, nema Jóhanna Sigurðardóttir. Henni var skv. almannarómi búið að hafna og átti að setja á varamannabekkinn á miðju körtímabilinu. Jóhanna þarf alls ekki vera mjög slæmur formannskostur. Hún er vel þekkt og hefur orð á sér fyrir ósérhlífni og heiðarleika. En spurningin er hvort hún sé sá leiðtogi sem flokkurinn sé að leita að til framtíðar. Skv. því sem heyrst hefur, að hún eigi bara að leiða flokkinn í komandi kosningum og tvö ár til viðbótar er það bara niðurlægjandi fyrir hana, að taka við leiðtogasætinu, svona til bráðabirgða. Húnn sé s.s. bara einnota formaður, bjargar því sem bjargað verður þar til „framtíðarformaður“ kemur í leitirnar, e.k. varadekk.

Að Jóhönnu frátaldri er einfaldlega ekki ljóst hver getur orðið næsti formaður flokksins. Árni Páll hefur fengið Lúðvík Geirsson uppi á móti sér, sem nú ætlar að gerast varðmaður flokksins að aftan í Suðvesturkjördæmi, með því að taka „baráttusætið“ eða halda bæjarstjórastólnum ella! M.ö.o. Lúðvík ætlar ekki að gerast vikapiltur á lista Árna Páls og hefur ekki farlið dult með óánægju sína með lýðræðislegar niðurstöður prófkjörsins. Dagur B. gerði þau reginmistök að bjóða sig ekki fram til þings og missti af formannslestinni, eftir að formaðurinn skipti um skoðun og hætti við formanns- og þingframboð í vor. Aðrir kandidatar virðast ekki vera í sigtinu.  

Ef Samfylkingin ætlar að hafa formann í næstu kosningum, þá er engin annar sýnilegur, en Jóhanna. Spurningin er hversu lengi hún fær að vera formaður og hvort væntanlegt framboð hennar segi ekki meira um ástandið í flokknum en forystuhæfileika hennar?


mbl.is Biðin eftir Jóhönnu á enda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Jóhanna Sigurðardóttir enn að brjóta lög?

Nýskipað bankaráð Seðlabankans er „ólöglegt“ skv. jafnréttislögum, sem kveður á um að hlutfall annars kynsins megi ekki fara niður fyrir 40%!

Þetta er sérlega athyglisvert þegar skoðað er hver á hlut í þessu máli, þ.e. aðeins ein kona af fjórum fulltrúum ríkisstjórnarflokkana er kona, eða 25%, en þrír karlmenn. Stjórnarandstaðan tilnefnir þrjá fulltrúa því getur hlutfallið aðeins verið best 2 og 1, sem og er raunin.

Það eru því Jóhanna Sigurðardóttir og hennar liðar sem eru að brjóta jafnréttislögin eða a.m.k. að ganga þvert á anda þeirra. 

Það yrði í annað sinn á hennar forsætisráðherraferli sem hún yrði uppvís að slíku, sem myndi gera eitt brot á mánuði að jafnaði. Í síðasta mánuði fékk hún á sig dóm fyrir að hafa brotið á manni sem tilnefndur hafði verið í nefnd.

Spurning hvort Jóhanna íhugi nokkuð að segja af sér ef Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastjóri jafnréttisráðs kemst að því að lög hafi verið brotin - sérstaklega í ljósi fyrri yfirlýsinga hennar um strangar kröfur til ráðherra og að farið skuli að lögum!


Umræða á röngum forsendum

Gamli mælikvarðinn á árangur kynja stenst ekki lengur og því þarf að skoða þessa umræðu út frá nýju forsendum. Kjósendur eru farnir að velja frambjóðendur á grundvelli menntunnar, getu og frammistöðu frekar en á grundvelli kynferðis. Dæmi þá eru tveir hagfræðingar sem eru nýgræðingar í stjórnmálum ofarlega á listum nú en hefðu sennilega ekki komið fram ef ekki væri vegna efnahagsástandsins.

Mun fleiri karlar hafa ákveðið að hætta á þingi og var hafnað í prófkjörum en konum, svo dæmi um hið gagnstæða í umfjöllun blaðsins sé dregið fram. 

Skv. niðurstöðum t.d. Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, er árangur kvenna mjög góður, þrjár í fjórum efstu sætunum. Þrátt fyrir að konur séu ekki marga ofarlega á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, eru þær fjórar af fimm nýliðum í 12 efstu sætunum. Þetta verður að skoða í ljósi þess að þeir sem eru á þingi fyrir eru í yfirburðastöðu þegar kemur að kosningum, sérstaklega þegar svigrúm til umfjöllunar varð eins lítið og raun bar vitni.

Þessi einfaldi tölulegi samanburður á frammistöðu kynjanna er ekki raunhæfur lengur. Íslendingar virðast komnir upp úr henni.  


mbl.is Útkoma kynjanna ólík eftir flokkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einföld lausn til að koma hjólum efnahagslífsins af stað á nýjan leik

Trikkið við þessa hugmynd er að hún kostar ekkert, af því að það er búið að afskrifa þessi lán nú þegar um 50% með færslu þeirra til nýju bankana. Kosturinn væri sá að almennur sæi aðgerðir STRAX, ekki á næsta ári eða því þar næsta!

Eitt af aðalvandamálum efnahagslífsins er að þó að það séu til peningar í kerfinu eru þeir ekki á hreyfingu, heldur bíða vegna óvissu. Það eitt er ákveðið vandamál nú. Með því að að afskrifa 20% skulda fyrirtækja og einstaklinga kæmi innspíting í efnahagslífið sem gæti ýtt þessum kyrrstæðum hjólum efnahagslífsins af stað á ný. Þeir sem ekki þurfa á niðurfellingu, gætu nýtt aukið fjárhagslegt svigrúm til þess að fjárfesta, lána nú eða borga út umsamdar kjarabætur svo dæmi séu tekin. Þessi aðgerð væri skýr skilaboð til þeirra sem eru í óvissu hvað gert verður ef þá eitthvað verður gert yfirleitt.

Síðan er þessi aðgerð einfalt réttlætissjónarmið, því að lán hafa hækka mikið að undanförna vegna hækkunar á (kolrangri) vísitölu eða skyndilegs falls krónunnar. Þessi lækkun tæki þessa hækkun til baka a.m.k.

Loks væru mál sem þessi dyðgðu ekki skoðuð sérstaklega. En þau yrðu miklu færri fyrir vikið og væri hægt að afgreiða mun hraðar en m.v. óbreyttar aðstæður.

Ein af aðalástæðum þess að stjórn Obama dreif í gegn um 800 milljarða dollar efnahagsaðgerðarpakka um miðjan febrúar sl., var að senda skýr skilaboð út í efnahagslífið um aðgerðir, ekki bið eða nánari skoðun á málunum. 

Viðhorf núverandi stjórnvalda við hugmyndum um efnahagsaðgerðir einkennast að óvenju mikilli tortryggni og seinagangi sem eru að verða efnahagsvandamál út af fyrir sig. 


mbl.is Tryggvi Þór: 20% af skuldum heimilanna verði felldar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisráðherrar fá útreið

Hér áður þótti ekki greið leið til vinsælda að taka að sér embætti fjármálaráðherra, sbr. stöðu Ólafs Ragnars þegar hann lét af því embætti árið 1991. Heilbrigðisráðuneytið þótti á lengi vel vera slæmt ráðuneyti og var ávísun á útleið úr stjórnmálum og bloggar þá hugsað til afdrifa þeirra Guðmundar Bjarnasonar og Sighvats Björgvinssonar.

Nú bregður svo við að síðustu tveimur umhverfisráðherrum er hafnað. Fyrst Kolbrúnu hjá VG og nú Þórunni hjá Samfylkingunni. Annað sem þessar tvær þingkonur eiga sameiginlegt er að stefnumál þeirra hafa þótt keimlík.

Getur verið að kjósendur séu að hafna hinni öfgafullu „verndarstefnu“ þeirra - jafnvel meðal vinstri manna? Athyglisvert ef satt er. Í öllu falli er þessi útkoma þeirra tveggja umhugsunarverð!


mbl.is Árni Páll sigraði í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fordæmi fyrir því sem koma skal?

Það að svo margir flokkar haldi prófkjör, forval eða geri kannanir meðal sinna stuðningsmanna, um sömu helgina, getur verið forboði þess sem koma skal í framtíðinni.  

Í Bandaríkjunum hafa stóru flokkarnir prófkjör sín eða forval nær undartekningarlaust um sömu helgina í einstökum ríkjun, þótt forkosningarnar dragist yfir nokkra mánuði um öll Bandaríkin.

Íslensku flokkarnir gætu t.d. komið sér saman um að hafa prófkjör eða forval um sömu dagana og sameinast þá um mannskap og húsnæði. Með þeim hætti væri t.d. komið í veg fyrir að kjósendur hoppi á milli lista eins og tæknilega mögulegt er þegar flokkarnir hafa prófkjör á mismunandi tímum.

Þetta gæti leyst deiluna sem upp er komin á þingi um stjórnarskrár- og eða lagabreytingar um val kjósenda um frambjóðendur á listum á kjördag. 


mbl.is Líflegasta prófkjörshelgin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilvistarkreppa hjá Samfylkingunni?

Sú óvissa sem upp er kominn hjá Samfylkingunni í kjölfar tilkynningar formanns flokksins, að draga sig í hlé, er farin að vekja athygli. Þessi óvissa endurspeglaðist nokkuð vel þegar formaðurinn þurfti að hverfa frá störfum vegna veikinda sinna í fyrr í vetur. Þá blossaði upp óánægja með þáverandi stjórnarsamstarf og í raun þá ákvörðun formannsins að hafa farið í þetta stjórnarsamstarf.

Vandi Samfylkingarinnar er að það er lítil hefð fyrir samstarfi á vinstri væng stjórnmálanna. Reyndar er mun meiri hefð fyrir klofningi og sundurþykkju - jafnvel í nafni samstarfs eða fyrirætluna um að sameina vinstri menn. Dæmi um slíkt eru ferðalög þáverandi formanna Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins undir formerkjum sameiningar en augljóslega kom aldrei til greina að sameinast. Nýr vettvangur var framboð Ólinar Þorvarðardóttur, þingmannskandidats nú í Norð-vesturkjördæmi, til borgarstjórnar í Reykjavík í því skyni að sameina vinstri menn í Reykjavík. En fyrst þurfti hún að kljúfa sig út úr Alþýðuflokknum til þess að geta sameinað hann við önnur vinstri öfl í landinu. Að þessu leyti svipar Samfylkingunni til Verkamannaflokksins í Bretlandi fyrir tíma Tony Blairs, sem náði að mynda samstöðu um sókn til valda í landinu. Norsku og sænsku systurflokkarnir sem eru fyrirmynd Samfylkingarinnar hafa aldrei orðið að veruleika hér á landi.

Samfylkingin er mynduð af fólki með ólíkan grunnn og sýn - af því er virðist. Öðru megin er róttækt fólk sem styður ríkisvæðingu fyrirtækja, róttækar aðgerðir til hækkunar skatta o.s.frv. Á hinn bóginn eru þarna líka einstaklingar sem undir nafni jafnaðarmennsku vilja gefa fyrirtækjum sem mest svigrúm til að starfa. Umhverfismálin er dæmi um málaflokk sem skiptir Samfylkingunni í tvo nokkuð andstæða hópa. Landsbyggðarumræðan setur líka mark sitt á umræðu innan flokksins að nokkru leyti, nokkuð sem t.d. Alþýðuflokkurinn gamli var alveg laus við og Alþýðubandalagið eiginlega líka. Inn á milli starfa þarna líka nokkrir atvinnustjórnmálamenn sem reyna að halda fylkingunum saman undir formerkjum samstöðu og að það sé eina leiðin til að halda völdum líka. Þessir einstaklingar gætu margir hverjir átt heima í öðrum flokkum, hvort sem er á miðju, til hægri eða vinstri við Samfylkinguna.

Vinstri Grænir, sem aldrei átti að verða annað er hópur sérvitringa yst á vinstri væng stjórnmálanna, eru nú bæði orðin raunverlegt afl í íslenskri pólitík og mikil ógnun við Samfylkinguna um forystu á vinstri væng stjórnmálanna. Með afdráttarlausri baráttu í umhverifsmálum og harðri stjórnarandstöðu hefur flokknum nú tekist að taka frumkvæðið af Samfylkingunni og hefur skapað mikinn skjálfta innan hennar. Það kom berlega í ljós eftir fall bankanna í haust og þegar mótmælin hófust.

Vandamál vinstri manna hefur verið að halda liðinu saman þegar þeir eru við völd. Brestir hafa ætið komið upp á milli róttæku aflanna og þeirra sem vilja sýna ábyrgð og höfða til meirihluta kjósenda.  Nú þarf að finna formann sem getur í senn myndað hugmyndafræðilegt jafnvægi innann flokkins (þ.e. að hafa traust allra mismunandi afla) og enn mikilvægara að hafa traust út á við. Sá leiðtogi er ekki alveg í augsýn.

Sú hugmynd að gera Jóhönnu Sigurðardóttir að formanni tímabundið, er leið til að fresta ákvörðunni um framtíðarleiðtoga, enda sett fram sem skammtímalausn, á meðan er verið að finna annan einstakling sem gæti sameinað flokkinn á ný. Framboð Jóhönnu gæti forðað flokknum frá upplausn eða klofningi tímabundið, en hún er greinilega enginn framtíðarleiðtogi. Hennar tími má segja hafi fallið henni í skaut vegna kreppunnar og veikinda formannsins. Flokkurinn á enn eftir að ná saman og fara að funkera sem heilstæður flokkur sem hann þarf að verða til að ná árangri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jónas Egils.

Höfundur

Jónas Egilsson
Jónas Egilsson
Höfundur er áhugamaður um mál líðandi stundar og er stjórnmálafræðingur að mennt.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mávur að nærast á hval.
  • picture 2 861432.png
  • Ráðherra í fríi
  • Leiðarljós vinstri manna í efnahagsmálum?
  • Mme. Joly - Nýjasta svindlið?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband