Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
1.4.2008 | 09:27
Skrítin krafa og forneskjuleg
Það hljómar svolítið furðulega ef gera á þá kröfu að vegamálastjóri verði verkfræðimenntaður, af því að þetta hafi alltaf verið svona. Nú er hvorki eins og það skorti verkfræðinga hjá vegagerðinni, né að stjórnunarstörf séu öll verkfræðilega eðlis! Sýnir þessi hugmynd e.t.v. betur en margt annað, að þörf sé á endurskoðunar stefnumótunar hjá stjórnsýslu ríkisins.
Vegagerðin höndlar meira en vegagerð, vegahönnun og brúargerð. Þarna koma upp álitaefni, lögfræðilegs eðlis, og fjármál hljóta að vera stór þáttur í rekstri stofnunarinnar. Almenn stjórnun er það sem viðkomandi fæst við daglega, svo dæmi séu tekin.
Innan Vegagerðarinnar er góður hópur af velmenntuðu og þjálfuðu fólki með fjölbreyttan bakgrunn sem nýtist vel við stjórnun og skipulagningu og ekki síst ákvörðunartöku. Vegamálastjóri þarf fyrst og fremst að vera vandaður einstaklingur sem getur tekið ákvarðanir, mótað stefnu og komið fram út á við f.h. stofnunarinnar ásamt því að hafa stjórn á stofnuninni.
Það hljómar forneskulegt að gera þær kröfur að viðkomandi sé verkfræðingur. Leita á að góðum stjórnanda fyrst og síðast. Því er skorað á samgönguráðherra að hefja sig upp úr "hjólfarinu" og finna besta stjórnandan - sem vel getur líka verið verkfræðingur.
![]() |
Nýr vegamálastjóri hafi verkfræðimenntun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.3.2008 | 11:22
Eru Bandaríkin tilbúin fyrir Obama?
Eftir því sem nær dregur úrslitum í forkosningum Demókrata í Bandaríkjunum eykst sú óvissa hvort Bandaríkjamenn séu tilbúnir að kjósa sér forseta af afrískum uppruna. Bæði Clinton og Obama þykja spennandi frambjóðendur og fjölmargir kjósendur eru svo sannarlega tibúnir að gefa þeim tækifæri.
Ef hægt hefur verið að alhæfa, þá hefur Clinto sótt sitt fylgi til miðaldra kvenna og lægri launaðra þjóðfélagshópa ("bjórdrykkjumanna") en Obama hefur aftur á móti sótt sitt fylgi til betur menntaðra og launaðra (til þeirra sem drekka vín) auk kjósenda af afrískum uppruna. Annað sem hefur einkennt kjósendahópa þessara frambjóðenda er að Obama fær hlutfallslega meira fylgi í borgun og þéttbýli, en Clinton hins vegar í dreifbýli - almennt séð. Eins er athyglisvert að Clinton hefur sigrað mörgum ríkjum sunnan svokallaðaðrar "Mason-Dixon" sem upphaflega skipti Bandaríkjunum í Norður- Suður. Undantekningar eru að sjálfsögðu ríkin þar sem kjósendur af afrískum uppruna eru mjög fjölmennir. Þessar "línur" milli Obama og Clinton benda til þess að vissulega gengur þeim misvel að höfða til einstakra "ráðandi" minnihlutahópa (kvenna, kjósenda af afrískum, Suður-Amerískum uppruna, asískum o.sfrv.). Þegar kemur að kosningunum sjálfum hins vegar er spurning hvert t.d. "hvítir karlmenn" leita.
Enn annað atriði er að Clinton hefur borið sigur úr bítum í fjölmennustu ríkjunum, t.d. Kaliforníu, Texas og New York. Þannig að ef þær reglur giltu enn sem voru að sigurvegarinn í hverju ríki fyrir sig, tæki alla kjörmenn eða fulltrúa, þá væri hún svo gott sem búin að sigra forkosningarnar, með um 2.000 fulltrúa en hann aðeins um 1.200.
Í öllu máli skiptir fyrir Demókrata að sigra í forsetakosningunum í nóvember. Kosningarnar verða mjög áhugaverðar, því annars vegar verður "hefðbundinn" og hófsamur Republikani í framboði, þ.e. hvítur karlmaður og hins vegar eitthvað alveg nýtt. Hvort þeirra Clintons eða Obama sem verður síðan í framboði fyrir Demókrata, þurfa þau að ná trausti "hvítra karlmanna" sem eru að verða fjölmennasti minnihlutahópurinn í Bandaríkjunum, eins og þeir eru þegar í Kaliforníu - líklega kemur til með að ráða úrslitum í kosningunum í nóvember.
Úrslit forkosninganna í gær, þriðjudaginn 3. mars, benda til þess að Bandaríkjamenn séu enn hugsi og séu í raun ekki alveg tilbúnir að samþykkja Obama og heldur ekki Clinton. Í þeirri óvissu felast tækifæri McCain!
6.1.2008 | 14:06
Sjálfkörinn forseti?
Lengst af var nokkur góð samstaða meðal þjóðarinnar og forystumanna þjóðarinnar um hlutverk forsetaembættisins. Núverandi forseti má segja hafi endurskilgreint það hlutverk á sínum tíma þegar hann lýsti því yfir að hann myndi neita að staðfesta "fjölmiðlalögin" svonefndu. Í kjölfarið spruttu deilur í öllu samfélaginu sem lauk ekki með afgerandi hætti.
Á sama tíma og þjóðarsátt var í gildi um embættið, þ.e. embættið naut virðingar og trausts, var yfir gagnrýni hafið o.s.frv., var forsetinn sjálfur ekki að leitast við að endurskilgreina það með því að storka framkvæmdarvaldinu. Nú þegar forsetinn sjálfur hefur dregið nýja línu í sandinn, ef svo má að orði komast, er spurning hvort ekki þurfi að draga þessa línur á fleiri sviðum.
Er það t.d. sjálfgefið að ekki skuli kosið um embættið, þótt forseti sé einn frambjóðenda? Kæmi ekki til greina að hafa kosningar um frammistöðu forsetans líka? Ef hann hefur (tekið sér) völd, þarf þá þjóðin ekki að fá tækifæri til að fella dóm um embættisfærsur forsetans?
Núverandi fyrirkomulag er ekki alveg að virka. Sú hefð hefur skapast að forsetinn sé sjálfkjörinn og meðal málsmetandi manna og kvenna, engum slíkum dettur í hug að bjóða sig fram gegn honum. Þrátt fyrir að forsetinn hafi tekið sér umdeild völd, nýtur embættið nægilegrar mikillar virðingar, að raunhæfur kostur við sitjandi forseta hefur ekki komið fram.
EF sett væru ákv. í stjórnarskrá að kosið skuli til embættis forseta á 4 ára fresti, væru meiri líkur á að raunhæfur kostur stæði til boða. Eftir þær kosningar gæti forseti sagt að hann hefði umboð þjóðarinnar. Eins og staðan er í, þá er svo ekki. Ríkisstjórn, sem hefur stuðning meirihluta Alþingismanna, getur aftur á móti sagt að hún hafi meiri stuðning þjóðarinnar. Á meðan þessi öfl togast á, ríkir ekki sátt og stöðugleiki í stjórnkerfinu.
5.1.2008 | 00:42
Alþingi til fyrirmyndar - eða þannig
Eftir að reykingar voru bannaðar í öllum opinberum stofnunum og húsum og veitingastöðum hefur ein undantekning verið gerð - að því að best er vitað. Það er reykingarherbergið í Alþingishúsinu sjálfu, fyrir þingmennina. Alþingismönnum sjálfum er það kunnugt að tóbaksvaninn, jafn slæmur og hann er, getur verið harður húsbóndi.
En almenningi er ekki leyft að reykja og síst af öllu á veitingastöðum. Það eru um 30 ár síðan sett voru upp reyklaus svæði á öllum veitinga- og skemmtistöðum í Kaliforniu. Þar fannst mönnum jafnsjálfsagt að þeir sem vildu reykja fengju það og þeim sem vildu vera á reyklausu svæði.
Nú er ríkisvaldið, sem hefur ærið miklar tekjur af tókbakssölu, um 60% afa verði hvers vindlingapakka, hefur ákveðið að stemma stigu við reykingum með bönnum á opinberum stöðum, þ.m.t. veitingahúsum, börum o.fl. Jafnrökrétt gæti verið að banna áfengi á veitingastöðum, enda löngu þekkt slæm áhrif áfengis á heilsufar og jafnvel hegðun manna.
Væri ekki nær að nota eitthvað af tókbaks- og áfengispeningunum til að upplýsa almenning um hætturnar og hvetja a.m.k. til hóflegrar neyslu, en að banna reykingar?
Þekkt er að á bannárum áfengis brugguðu menn einfaldlega og þar til bjórinn var leyfður, var honum einfaldlega smyglað til landsins. Nú tekur þessu varla og ríkið græðir á meiri sölu - sem það gerði ekki áður, a.m.k. ekki á heimabrugginu og smyglinu.
Er ekki kominn tími til að ríkisafskiptasinnar fari að hætta að stjórna okkur? Látum Lýðheilsustofnun upplýsa og fræða almenning - sérstaklega börn og unglinga. Við getum að sjálfsögðu haft skýrar reglur um rétt þeirra sem t.d. vilja ekki reyk, en leyfum þeim sem vilja fá sér smók í friði.
Nú hefur sá sem þettar ritar alrei reykt né sækir skemmtistaði að neinu gagni. En það má samt ekki troða á réttindum hinna. Það þarf að verja réttindi minnihlutans (sem reykir), því meirihlutinn (sem ekki reykir) gerir það sjálfur!
4.11.2007 | 16:47
Með lögum skal illt út rekið!
Ekki nóg með það, heldur er þetta gamaldags hugsunarháttur líka, en því miður fyrirfinnst ennþá, m.a. í ofurtrú á ríkisvaldið, boðvaldi og í raun ofbeldið sjálft - því þvingunarúrræði ríkisvaldins er ofbeldi - sem það hefur einkarétt á!
Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á jafnfréttislögum. Nú skal í eitt skipti fyrir öll, með góðu eða illu, eytt öllum kynjabundnum mun á launum einstaklinga! Hvorki meira né minna.
Stóra spurningin er, en henni er reyndar ekki svarað, af hverju stafar þessi munur? Þar að leiðandi er ekki leitast við að finna rót vandans. Jú, reyndar eru til samsæriskenningar um karlaveldi og tengslanet. Þegar grant er skoðað heldur þessi kenning ekki miklu vatni. Í þessari umræðu hefur verið bent á að konur eru "hógværari" þegar kemur að launakröfum, kröfum um frama, þær eru síðri til ota sínum tota - ef svo má að orði komast. Er vandinn einmitt fólginn í samfélagslegri gerð okkar. Væri ekki nær að draga þessi mál upp á borðið í stað þess að búa til e.k. "jafnfréttislögreglu"?
Á sama hátt og reynt var að reka út "illa anda" úr mönnum og konum með barsmíðum eða ferð í gegnum hreinsunareldinn á miðöldum, á nú að "uppræta" kynjamun með lögum! Þessi aðferðarfræði dugði ekki þá og nú sem fyrr þarf að komast að rót vandans, komast að skýringunni, breyta hugsunarhætti og siðferði manna. Rétt eins og almenningur áttar sig á að grípa þarf til stórtækra aðgerða vegna umhverfismála - ekki vegna harðrar löggjafar um málið, heldur vegna umræðunnar og aukins skilnings almennings á að grípa verði til aðgerða. Hugmyndin um vottun fyrirtækja sem væru til fyrirmyndar er stórgóð hugmynd sem félagsmálaráðherra ætti að gefa sér tíma til að skoða betur. Það er hvetjandi aðferðarfræði, en ekki þvingandi.
Nú skal tekið skýrt fram að sá sem þetta skrifar er alfarið á móti allri mismunun einstaklinga, á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, ætternis, aldri, trúarbrögðum, háralit eða nokkru öðru en persónulegum eiginleikum, framkomu, þekkingu eða getu.
22.10.2007 | 18:40
Áfengi. Orsök og afleiðing
Í kvöldfréttum RUV kl. 18 í dag, var nokkuð rætt um sölu áfengis í verslunum og aðgengi að því. Ellert B. Schram alþingismaður stígur varlega til jarðar og þrátt fyrir að vera andstæður hugmyndinni áskilur sér rétt til að skipta um skoðun.
Umboðsmaður barna dregur hins vegar ekki af sér og fullyrðir að áfengi sé hreinlega böl og aðgengi að því eigi að vera sem minnst. Þarna er umboðsmaðurinn að rugla saman orsök og afleiðingu. Málið snýst um viðhorf almennings, virkni forvarnastarfsins o.fl. Boð og bönn hafa aldrei leyst allan vanda og gera það ekki.
Það geta verið aðrar ástæður fyrir "ofdrykkju" í samfélaginu en aðgengi. A.m.k. er áfengisvandinn ekkert minni þar sem ríkið fylgir stíft eftir einkasöluleyfi, eins og á Norðurlöndunum og í þeim löndum sem aðgengi er betra en "kúlturinn" og viðhorf með öðrum hætti en t.d. hér.
Það er kominn tími til að þessi umræða verði á grundvelli skymsemi, en ekki fordóma. E.t.v. eru ummæli þingmannsins vísir að því.
7.10.2007 | 18:00
Slæmt mál en ...
Vissulega eru margar aðgerðir bandarískra yfirvalda ekki til fyrirmyndar. Sumt af því sem gert hefur verið er e.t.v. fylgifiskur stríðsreksturs - nokkuð sem almennt er ekki æskilegt ástand, en getur verið illskásti möguleikinn samt.
Það sem í öllu falli er að gerast er að það fer fram umræða um þessi mál. Bandarískt samfélag er mjög gagnrýnt á aðgerðir stjórnvalda. Stjórnvöld eru bæði gagnrýnd frá hægri og vinstri, þ.e. þeim sem vilja sem minnsta afskiptasemi stjórnvalda og afskipti af erlendum vettvangi. Eins kemur gagnrýni frá þeim sem telja af húmanísktískum ástæðum stjórnvöld eiga að hafa aðrar áherslur, en þau gera. Það væri í raun mjög fróðlegt fyrir þá sem gagnrýna stefnu bandaríkjana, að kynna sér umræðuna sem þar fer fram. A.m.k. kom umræðan Styrmi Gunnarssyni ritstjóra Morgunblaðsins á óvart þegar hann var þar á ferð á árum Vietnamstríðsins. Taldi hann að umræðan þar væri mjög beinskeittari og gagnrýnni en t.d. hér á Íslandi og reyndar á öðrum forsendum líka.
Niðurstaðan er þessi að vissulega séu brestir í framkvæmd stefnu Bandaríkjana í ýmsum málaflokkum - eins og er hjá öllum stjórnvöldum. Bandaríkin eru öflugasta ríki heims og mjög áberandi í umræðu manna í milli. En umræðan innan samfélagsins þar fer fram, stjórnvöld eru hikstalaust gagnrýnd og aðgerðum eða aðgerðarleysi mótmælt. Kerfið er e.t.v. ekki fullkomið, en þar fer fram mikil samfélagsleg gerjun og mikil þróun á sér stað innan samfélagsins. Í öllu falli vildi ég ekki að Bandaríkin væru eitthvað annað en lýðræðisríki og hefði ákveðnar siðferðislegar skyldur sem slíkt. Við sjáum hvað verður um mótmælendur í Burma í haust, eða hvað gerðist á Torgi hins himneska friðar hér um árið o.s.frv.
![]() |
Nancy Pelosi segir Bandaríkin virðast vera sek um pyntingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.9.2007 | 23:27
Sannleikanum er hver sárreiðastur
Árni Þór Sigurðursson borgarfulltrúi og þingamður VG m. fleiru fjargviðrast mikið á blogginu sínu út í Staksteina þar sem menn voga sér að velta fyrir sér framtíð formanns flokksins. Læðist að mér sú hugsun það megi hreinlega ekki tala um Steingrím eða innbúðarmál VG. Ef svo er illa komið fyrir flokknum.
En staðreyndin er einfaldlega sú að VG er orðinn flokkur þar sem fleiri eru sýnilegir en Steingrímur J. Þessi flokkur hefði aldrei orðið fugl né fiskur án hans og margir "gamlir og góðir kommar" hefðu annað hvort verið heimilislausir eða haldið í jaðri Samfylkingarinnar. En þökk sé Steingrími að svo fór ekki fyrir róttæklingum samfélagsins. Hann barðist af hörku og mikilli mælsku og VG er orðið það sem það er. En tímarnir breytast en Steingrímur J ekki. Hann er orðinn e.k. tákngervingur púkans á fjósbitanum, á móti helst öllu.
Það er mál margra að Steingrímur sé e.t.v orðinn fórnarlamb eigin velgengni eða stíls. Ef VG ætla að stíga næsta skref, sem er að komast í stjórn og verða trúverðulegur flokkur, þá er það spurning hvort Steingrímur sé rétti maðurinn. Vonandi leyfist okkur hinum að ræða það.
Aðferðarfræði Árna Þórs er reyndar vel þekkt úr stjórnmálunum, að koma sínum manni til bjargar í hæfilegu magni, svona til að gera sig gildandi, á sama tíma og hann tínir til allt það sem aðrir segja slæmt um skjólstæðing sinn og þ.a.l. koma þeim skilaboðum enn betur til skila, án þess þó að gera þau orð að sínum.
13.6.2007 | 00:40
Ráðherra í rykmökk?
Þórunn Sveinbjarnardóttir nýlegur umhverfisráðherra lét hafa eftir sér í viðtali í Morgunblaðinu sl. sunnudag að hún væri á móti malbikuðum vegi yfir Kjöl. Þessi yfirlýsing kom bæði á óvart í aðra röndina og svo á hinn bóginn ekki.
Reyndar hafði yfirmaður allra umhverfismála á Íslandi og víðar, Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, líst þeirri skoðun sinni í sama blaði, í lok febrúar sl., að það ætti alls ekkert að byggja Kjalveg upp með bundnu slitlagi. Rökin voru einfaldlega þau að fólki lægi bara ekkert á að komast yfir hálendið. Þessi sjónarmið styður nýr umhverfisráðherra og virðast hin svonefndu "náttúrverndarsinnar" vera á þessari línu, vegryk og aurbleyta eru með öðrum orðum vistvæn. Að þessu leytinu kom þetta sjónarmið ráðherrans ekki á óvart.
Það sem kom hins vegar á óvart var að ráðherra skuli ekki hafa áttað sig á því að bílar sem aka malarvegi bæði eyða meira eldsneyti og skemmast meira þegar þeim er ekið á malarvegum. Má þar benda á nokkur atriði: Malarvegir orsaka meiri eldsneytiseyðslu og þ.a.l. meiri útblástur. Dekkjaslit er meira og meiri skemmdir verða á ökutækjunum á malarvegum (grjótkast) en malbiki. Meira viðhald, ofaníburður, heflun og síðan ekki síst er meiri slysahætta á möl (lausamölin).
Í öðru orðinu er ráðherran að tala um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Í hinu orðinu er mengun og ryk vistvæn! Er ekki uppbyggður Kjalvegur með bundnu slitlagi tilvalinn til þess, stytta flutnings- og ferðaleið milli Norður- og Suðurlands og draga þannig úr mengun?
Þórunn er e.t.v. of ung til að muna eftir því þegar allir helstu þjóðvegir í nágrenni Reykjavíkur voru með malarslitlagi og ryk fyllti alla bíla eða aurbleytan sem þakti alla bíla og þurfti að þvo af eftir hverja bílferð. Þá var mikil umræða í samfélaginu um aðgerðir til að bregðast við þessu mikla vegryki sem fyllti öll vit. Bundið slitlag var lausin.
Árni er aftur á móti fullkomlega samkvæmur sjálfur sér og ekkert við öðru að búast við af honum en svona gamaldags og frumstæðum hugsunarhætti. Ráðherran ætti að vera betur upplýst, en vonandi lagast það hjá henni með tímanum.
18.5.2007 | 13:20
Dýr öryggisventill
Nokkrir bloggarar og aðrir hafa haft á orði að forseti lýðveldisins sé nauðsynlegur öryggisventill fyrir lýðræðið í landinu. Nú hefur hann aldeilis sannað sig með því að taka við afsagnarbeiðni forsætisráðherra og veita honum umboð til myndun nýrrar ríkisstjórnar. Eins hafi hann aðrar nauðsynlegar fúnksjónir sem tilgreindar eru í stjórnarskrá og sem sameiningartákn þjóðarinnar. En er þetta nauðsynlegt embætti?
Sveitarstjórnarmenn hafa getað myndað meirihluta í sveitarstjórnum alveg hjálparlaust. Með öðrum orðum, ekki þarf neinn forseta þar. Svíar hafa undanfarna hálfa öld eða svo myndað ríkisstjórnir án hjálpar kongungsins þar. Voru þau Geir og Ingibjörg ekki búin að ákveða þetta allt fyrirfram og var þessi fundur á Bessastöðum ekki bara formsatriði?
Okkur skortir þjóðhöfðinga, en til hvers? Til að mæta í brúðkaups- og afmælisveislur hjá kóngafólki í Evrópu og vera þar settur í 2. flokk þar sem hann hefur ekki blátt blóð í æðum, sbr. nýlega afmælisveislu Noregskonungs. Þá mætti forseti vor að sjálfsögðu í afmælisveislu Svíakonungs fyrir tveimur árum. Hverjir voru mættir þar? Jú, að sjálfsögðu allt fínasta kóngafólk og nokkrir forsetar Evrópu, þar á meðal forseti Íslands, konungar Grikklands, Rúmeníu og Júgóslavíu. Fyrir þá sem ekki vita er Júgóslavía ekki lengur til og Rúmenar og Grikkir fyrir löngu afnumið konungdæmið þótt einhverjir geri tilkall til krúnunar. Ef okkur vantar einhvern symbólískan fulltrúa þjóðarinnar út á við, er hægt að notast við forseta þingsins.
Við Íslendingar höfum ekki kosið okkur forseta sem hefur notið meirihlutafylgis í kosningum síðan 1968. Þjóðin hefur meira og minna klofnað við hverjar forsetakosningar í jafnvel margar fylkingar. Stundum grær seint um slík sár.
Er þetta embætti ekki bara hégómi? Svo kostar þetta embætti hálfa millu á dag eða um 182,7 m.kr. á þessu ári skv. fjárlögum, en sex sinnum dýrari en hver þingmaður að jafnaði. Er ekki kominn tími til að spara?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Jónas Egils.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar