23.3.2008 | 17:00
Betri árangur í íþróttum!
Það hefur eflaust glatt marga hérlendis að Danir skyldu standa uppi sem sigurvegarar á nýafstöðu Evrópumeistaramóti í handbolta úr því að við gerðum það ekki sjálf. Fyrir einhverjum voru þetta a.m.k. illskárri úrslit en enn einn sigur Svíanna. Þó að Danir hafi verið í baráttunni á nokkrum undanfarinna stórmóta í handbolta hefur þeim ekki tekist að sigra fyrr en nú.
Það sem gerir þennan sigur Dana athyglisverðan er að þessu markmiði hefur verið unnið skipulega undanfarin ár, þ.e. að auka hlut Dana á alþjóðlegum vettvangi í íþróttum. Þessari stefnumótun er ekki eingöngu fylgt eftir af danska handknattleikssambandinu, heldur líka íþróttasambandinu og danska ríkisvaldinu. Ennfremur að þessi stefnumótun á ekki aðeins við handknattleik, því einnig er unnið eftir sambærilegri stefnu í öðrum ólympískum íþróttagreinum. Árið 2004 setti danska þingið sérstök lög um afreksíþróttir, um stofnun sérstakts verkefnis sem ber heitið Team Danmark (TD). Árangurinn hefur ekki látið á sér standa, því að árið 2002 unnu íþróttamenn sem kepptu innan vébanda sambanda sem síðar tóku þátt í Team Danmark-verkefninu til 44 verðlauna á alþjóðlegum vettvangi. Fjórum árum síðar eða árið 2006, unnu íþróttamenn innan þessara sambanda til 54 verðlauna, þ.e. árangur handboltaliðsins er langt frá því að vera tilviljun eða einstakur.
Þessi aukning er skýrð með bættum undirbúningi íþróttamanna og liða, markvissara starfi og bættu samstarfi innan íþróttahreyfingarinnar. Einna mikilvægasti þátturinn hafa verið rannsóknir og mælingar ásamt annarri aðstoð sem bæði einstaklingum og liðum hefur staðið til boða. TD fær árlega fjármagn frá ríkinu sem nemur rúmlega 81 milljón danskra króna. Til viðbótar kemur framlag frá danska íþróttasambandinu, tekjur af auglýsingum og sjónvarpsréttindum, en alls hafði TD um 142 millj. dkr. úr að spila árið 2006 eða svarar um 1,8 milljörðum íslenskra króna. Yfirfært á okkar aðstæður svarar þessi upphæð til um 100 m.kr. ef miðað er við íbúafjölda.Á lögum um TD er gerð krafa um mótun og framkvæmd heilstæðrar íþróttastefnu í landinu og stefnan sett á að gera Danmörku að ákjósanlegasta landinu til að ná árangri í íþróttum. Á vegum TD var gerð ítarleg greining á stöðu og möguleikum allra ólympískra íþróttagreina í landinu og þeim skipt í flokka eftir frammistöðu og getu. Í byrjun var farið ofan í stöðu einstakra íþróttagreina, frammistöðu einstaklinga og liða, umhverfi þeirra skoðað ásamt skipulagi, starfsemi, menntun þjálfara og annarra starfsmanna o.fl. Í kjölfarið var gerð áætlun fyrir hverja einustu íþróttagrein og unnið skv. henni. Þessi vinna er síðan í stöðugri endurskoðun, bæði að hálfu stjórnar TD og íþróttahreyfingarinnar. Hluti af starfi TD er mótun heildstæðrar þjálfunar og uppbyggingar afreksíþróttamanna framtíðarinnar.
Að verkefninu kemur ríkisvaldið, sveitarfélög, skólar ásamt íþróttahreyfingunni. Í stórum dráttum felst þetta starf í mótun heildstæðrar íþrótta- og afreksstefnu. Þetta starf skilar sér í betri undirbúningi íþróttamanna fyrir keppni og þjálfun. Fylgst er nánið með afreksíþróttamönnum líkamlegu og andlegu ástandi þeirra og gripið inn í ef nauðsyn krefur. Markvissar rannsóknir og mælingar eru gerðar á íþróttamönnum sem eru innan TD og styrktar- og þrekæfingar skipulagðar í kjölfarið í samráði við fagaðila. Þá er myndað þverfaglegt samstarf milli þjálfara í mismunandi íþróttagreinum til að tryggja hámarks nýtingu á þeirri þekkingu sem til er íþróttafólkinu til hagsbóta. Forystumenn íþróttahreyfingarinnar, sem tjáð sig hafa um þetta mál eru sannfærðir að þessi stefnumótun hafi skilað betri árangri og minni meiðslum hjá íþróttamönnum.Það er ekki bara íþróttahreyfingin sem nýtur góðs af starfi TD.
Mikil þekking um íþróttir og lýðheilsu verður til innan háskóla- og rannsóknarsamfélagsins. Aukin umræða í kjölfar bættrar frammistöðu leiðir af sér aukna þátttöku barna, unglinga og almennings í íþróttum. Flestum er ljóst mikilvægi góðra fyrirmynda fyrir æsku landsins. Sýnt hefur verið fram á fylgni milli góðs árangurs í íþróttum og í námi. Ennfremur verður forvarnargildi íþrótta seint metið til fjár. Aðstaða og skilyrði til æfinga og keppni hefur tekið miklum framförum hér á landi á undanförnum árum. Áhugi og metnaður íslenskra íþróttamanna er vel þekktur en árangurinn virðist láta á sér standa. Nauðsynlegt er fyrir íþróttamenn okkar að búa við sambærileg skilyrði og keppinautar okkar. Að öðrum kosti verðum við ekki samkeppnisfær í framtíðinni.
Um bloggið
Jónas Egils.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.