25.8.2007 | 17:09
Einstaklingsréttindi og réttindi samfélagsins
Athyglisverð umræða hefur átt sér stað í fjölmiðlum undanfarið um réttindi þeirra sem brjóta af sér eða gegn öðrum vis-a-vis réttindum hinna sem eru í nánasta umhverfi þeirra sem brjóta af sér. Þau dæmi sem höfð eru í huga er annars vegar umræða um meint brot á réttindum einstaklings sem þvingaður var til að gefa þvagprufu svo hægt væri væntanlega að komast að því hvort viðkomandi hefði ekið undir áhrifum áfengis eða ekki - öllu heldur hve mikið áfengismagnið hefði verið. Hitt dæmið er um réttindi þeirra nemenda á grunnskólastigi, þ.e. í skólaskyldu, til að fá fræðslu, þótt hegðan þeirra bæði truflaði eða beinlínis hindraði aðra nemendur í námi og eða skapaði aukin útgjöld fyrir hlutaðeigandi skóla og þar að leiðandi kæmi niður á öðrum nemendum óbeint a.m.k.
Sýslumaður í "þvagprufumálinu" var ekki í nokkrum vafa um sína stöðu, hann var að vernda almannaheill og því var réttlætanlegt að "brjóta" á réttindum ökumannsins sem var grunaður um ölvunarakstur og hefði getað valdið öðrum líkamlegu tjóni eða skemmdum á eigum. Sem betur fer, hlaust ekkert tjón af akstri þessa ökumanns svo þessi umræða verður alltaf "akademisk". Hins vegar hefði sýslumaður að öllum líkindum legið undir ámælum hefði hann ekkert aðhafst og umræddur ökumaður valdið tjóni eða málinu vísað frá dómi vegna ófullnægjandi sönnunargagna. Sú hugmynd, að láta lítið skilgreind "réttindi" og "sjálfsvirðingu" hins seka njóta vafans stangast á hagsmuni heildarinnar, það lagaumhverfis sem réttaríkið byggist á og er í raun í þversögn við markmið læknisstarfa. Hver er sjálfsvirðing þeirra sem aka undir áhrifum? Eins hvað með þá sem verða fyrir tjóni - líkamlegu eða veraldlegu vegna ákeyrslu ölvaðs ökumanns? Hlutverk lækna er lækna líkamleg mein og koma röð og reglu á starfsemi og útlit líkama samborgarana. Lögreglan hefur það hlutverk að halda uppi röð og reglu í samfélaginu og því eru þessar vangaveltur læknis um lögfræðileg atriði ótrúverðug. Allt málið fer fyrir dómstóla, sem vega og meta allar aðstæður og þá mun væntanlega verða skilgreint hvað má og má ekki í svona málum.
Í hinu dæminu, þar sem Reykjavíkurborg var að setja sér vinnureglur um viðbrögð vegna refsinga nemenda í grunnskólum borgarinnar, verður að segja að slíkt hafi verið löngu tímabært og þarft atriði. Það er löngu tímabært að réttindi og skyldur afbrotaaðila og brotaþola séu skilgreind samhliða verkferlinu sjálfu. Það hljómar sem þversögn reyndar að nemendur sem vísað sé úr skóla fyrir alvarleg brot, eigi sérstakt tilkall til að þeim sé sinnt sérstaklega og að gerðar verði sérstakar og kostnaðarsamar ráðstafanir til að tryggja að þeir fái að stunda nám sitt. Með því að brjóta gegn reglum samfélagsins hafa þeir hinir sömu að nokkru leyti a.m.k. fyrirgert rétti sínum til að halda áfram námi eða að aka um vegi landsins í tilfelli ölvaðra ökumanna. Andlegt ástand réttlætir ekki afbrot nema að viðkomandi sé veikur og undir þeim kringustæðum á að fá lækningu. Eins og bent hefur verið á, ávinna menn sér ekki aukin réttindi með slæmri hegðun og framkomu!
Þessi umræða er of mikilvæg til að henni sé stungið undir stól eða persónugerð í einum bílstjóra eða sýslumanni eða þaðan af síður verið hluti í tilverubaráttu einhverra hagsmunasamtaka. Þetta er umræða sem á heima á síðum blaða og í umfjöllunarþáttum ljósvakamiðla. Umræða þessi snertir grundvallaratriði lýðræðislegra réttinda í nútímasamfélagi.
Um bloggið
Jónas Egils.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.